LOGOS - LEXOMETRICA
     
 

LOGOS

Hvað er LOGOS?

LOGOS er hágæða greiningartæki til að greina lestrarerfiðleika hjá börnum, unglingum og fullorðnum.
LOGOS er nýtt tölvuforrit til að greina dyslexiu og aðra lestrarerfiðleika.

Um íslensku útgáfuna

Við í Lexometrica höfum síðan í janúar 2006 verið í samstarfi við lestrarsérfræðinginn prófessor Torleiv Høien frá Noregi um þýðingu, stöðlun og staðfæringu LOGOS á Íslandi og höfum einnig keypt einkaréttinn á LOGOS á Íslandi. Ísland, Danmörk og Svíþjóð eru fyrstu löndin fyrir utan Noreg sem gefa prófið út en fleiri lönd eru í farvatninu.

Hverjum nýtist LOGOS

LOGOS er hugsað fyrir grunnskóla en getur einnig nýst framhaldsskólum, lestrarmiðstöðvum, fullorðinsfræðslu og einkaskólum.
Við á Íslandi leggjum áherslu á snemmtæka íhlutun og kennslufræðileg úrræði hvað varðar lestrarnám barna.

Hvernig er prófið uppbyggt?

1. hluti er í 17 þáttum og er ætlaður og staðlaður fyrir 3. – 5. bekk en einstöku prófhluta er hægt að nota í 2. bekk þannig að hægt sé að greina lestrarerfiðleika barna eins fljótt og unnt er.

2. hluti er í 14 þáttum og er ætlaður og staðlaður fyrir 6. – 10. bekk og fullorðna.
Þættirnir greina færni í leshraða, lesskilningi, skilningi á hlustun, umkóðunarfærni og annarri lestrartengdri færni.
Flestir prófþættir eru metnir með tilliti til áreiðanleika og viðbragðsflýtis.

Prófin eru stöðluð þannig að hægt er að meta niðurstöður í samanburði við viðmið jafnaldra.

Hægt er að velja á milli forma niðurstaðna eftir því hvað hentar best; a. stöðluð skýrsla, b. sundurliðuð skýrsla eða c. nánari útfærslur á vandanum.

Niðurstöður prófanna er hægt að sjá í töfluformi og grafiskum útfærslum sem sýna stöðu nemandans, bæði sterkar og veikar hliðar.

Með þessu móti geta bæði foreldrar og sá sem er prófaður fylgst með framvindu lestrarnámsins.

Niðurstöður hvers prófs vistast rafrænt og LOGOSprófið gefur möguleika á að sækja fyrri prófniðurstöður, endurtaka valda prófhluta og meta framfarir. Samanburður prófniðurstaðna í t.d. lesskilningi, leshraða og skilningi á hlustun gefa milkilvægar upplýsingar um eðli lestrarvandans. Prófþættir LOGOS í umkóðun gefa upplýsingar um færni og erfiðleika. Aðra prófþætti þarf að túlka með tilliti til lestrarerfiðleikanna.

Prófinu fylgja hugmyndir um sveigjanleika LOGOSprófsins og tillögur að frekari prófunum.

Þá fylgja úrræði til eflingar og þjálfunar samkvæmt niðurstöðum hinna ýmsu prófþátta sem koma til með að bæta færni lestrar hjá nemendum. Þessi úrræði ásamt tillögum og ábendingum er hægt að prenta út um leið og skýrslurnar sem liggja fyrir strax að próftöku lokinni.

Hver prófandi getur einnig gert sínar persónulegu athugasemdir út frá upplýsingum og aðstæðum sem koma fram við próftöku. Þetta er mikil hagræðing við skýrslugerð.

LOGOS fylgir einnig CD diskur með útprentanlegum prófþáttum og handbók sem skiptist í fræðilegan hluta og leiðbeiningar um framkvæmd prófsins.

Fræðilegi hlutinn fjallar um þær kenningar sem prófið er byggt á, upplýsingar um prófþættina og hvernig túlka má niðurstöður. Þá er í handbókinni tillögur að úrræðum um kennslufræðilega íhlutun.

Í seinni hluta handbókarinnar eru leiðbeiningar um framkvæmd prófsins sem og svör við ákveðnum prófþáttum.

LOGOS forritið er eins fyrir þau lönd sem kaupa einkaréttinn og sjá um kynningu og útbreiðslu á LOGOS.

Túlkun og greining lestrarerfiðleika verður mun einfaldari með LOGOS forritinu en öðrum greinandi prófum sem notuð eru á Íslandi í dag.

Þær kröfur eru gerðar til þeirra sem fá að nota LOGOSprófin að þeir hafi faglega sérþekkingu á kennslu- og uppeldismálum, taki þátt í námskeiði sem meðal annars felst í því að prófa nemendur, túlka niðurstöður og skila skýrslu með tillögum að kennslufræðilegum úrræðum. Þessi skýrsla verður lögð til grundvallar mati á því hvort viðkomandi fær leyfi til að nota LOGOS á Íslandi.

Fyrstu námskeið verða haldin í byrjun árs 2008.

Tengiliðir LOGOS á Íslandi eru: Bjarnfríður Jónsdóttir, Guðbjörg Ingimundardóttir, Guðlaug Snorradóttir og Gyða M. Arnmundsdóttir

Hafið samband við lexometrica@logos-test.is